|
Annað mál, sem varðar stjórn og eftirlit og þarfnast nákvæmari greiningar, er eldflaugabrak, vegna þeirrar hættu að brot úr eyddum sprengjuoddum gætu fallið á yfirráðasvæði lands utan NATO eða á land í NATO, sem ekki væri verið að ráðast á, og ætti ekki beina aðild að ákvörðun um átökin. Hugsanlegt tjón af völdum braks er rétt að bera saman við afleiðingar heppnaðrar eldflaugarárásar. Ekkert brak úr geimferjunni Kólumbíu lenti á fólki og var ferjan þó mun stærri en sprengjuoddur sem yrði sprengdur í smátt yrði með sprengju úr varnarflaug (ekki þó kjarnorkusprengju). Þegar um eyðingu utan andrúmsloftsins er að ræða má búast við að brakið brenni upp til agna á leiðinni til jarðar. Jafnvel þótt óvinurinn beitti kjarnaoddum sem hannaðir væru til að springa við inngrip og mynda rafsegulhögg, sem ekki er einfalt hönnunarverkefni, yrðu skemmdir af völdum slíkra rafsegulhögga í háloftunum mun minni en eftir kjarnorkuárás á stórborg, þótt þær yrðu töluverðar. Burtséð frá gríðarmikilli eyðileggingu strax myndar árangursrík kjarnorkuárás geislavirkt ofanfall og veldur yfirþyrmandi, langvinnum, heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum skaða. Nick Witney, sem þá var breskur embættismaður, kann að hafa haft þessar afleiðingar í huga þegar hann ritaði 2003: „Ekkert evrópskt ríki, vona ég, myndi neita að hætta á að brakskúr félli á yfirráðasvæði þess eftir árangursríkt inngrip, ef það væri gjaldið sem greiða þyrfti til að vernda vin eða bandamann nær eða fjær fyrir eldflaugaárás“.
|